Notandi: Lykilorð:

Notkunarskilmálar

Notkun á Móttökustjóranum

1. Móttökustjórinn er ókeypis bókunarkerfi fyrir gististaði, rekið af MTS Íslandsbókun ehf. á Húsavík.

2. Með staðfestingu á skilmálum þessum samþykkir notandi að nýta kerfið eingöngu í löglegum tilgangi og á þann hátt að það brjóti ekki, takmarki eða komi í veg fyrir notkun annarra á því.

3. Notkun á fölsku nafni, tilraunir til fjársvika og öll önnur notkun sem brýtur í bága við skilmála þessa eða landslög á Íslandi verður kærð til lögreglu.

4. Íslandsbókun er heimilt að loka á aðgang notenda sem gerast uppvísir að brotum á skilmálum kerfisins og grípa til frekari aðgera í samráði við lögmenn félagsins ef um umfangsmikið eða alvarlegt brot er að ræða.

5. Öll deilumál sem kunna að rísa vegna notkunar á kerfinu skulu rekin fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Meðferð persónuupplýsinga

6. Þær upplýsingar sem skráðar eru í kerfið, svo sem heimilisföng, netföng eða símanúmer eru trúnaðarmál. Upplýsingar um viðskiptavini verða aldrei seldar til þriðja aðila eða gerðar aðgengilegar óviðkomandi aðilum.

Notendaaðgangur

7. Notandi ber ábyrgð á öllum upplýsingum sem hann skráir í kerfið. Íslandsbókun tekur enga ábyrgð á að dulkóða þær upplýsingarnar sem notandi skráir nema annað sé sérstaklega tekið fram.

8. Notandi má ekki undir neinum kringumstæðum gefa öðrum aðila aðgang að lykilorði sínu. Starfsmenn Íslandsbókunar munu ekki biðja notanda um lykilorð sitt munnlega eða skriflega.

Sala á gistingu gegnum vefinn

9. Notendum kerfisins býðst að selja gistingu í gegnum fjölda söluvefa sem tengdir eru við kerfið.

10. Notandi ábyrgist að öll sú gisting og þjónusta sem seld er í gegnum söluvefi sé veitt kaupanda. Ef yfirbókun verður skal notandi útvega sambærilega eða betri gistingu fyrir kaupanda.

11. Notandi ber ábyrgð á því að réttur fjöldi herbergja sé skráður í sölu hverju sinni til að fyrirbyggja að yfirbókanir komi upp.

12. Notandi ábyrgist að þau verð sem gefin eru upp á söluvef séu alltaf þau lægstu sem eru auglýst, nema ef um tímabundið tilboð sé að ræða. Ef kaupandi sér lægra verð auglýst en á vefnum skal notandi lækka verð gistingarinnar sem nemur mismun á ódýrasta verði og því verði sem kaupandi greiddi við bókun gegnum vefinn.

13. Öll sala í gegnum söluvefi telst samningur milli notanda og kaupanda gistingar. Með kaupum á þjónustu samþykkir kaupandi þá skilmála sem notandi setur um þjónustu sína, eins og þeir standa þann dag sem kaup eru staðfest.

14. Íslandsbókun getur aldrei orðið ábyrg fyrir mistökum eða vanefndum notanda.

15. Notanda er skylt að tryggja að upplýsingar um þá þjónustu sem hann veitir séu réttar.

Gjöld

16. Ekkert gjald er tekið fyrir skráningu í kerfið. Allir notendur hafa aðgang að kerfinu án endurgjalds og er heimilt að nýta það til að halda utan um bókanir, verðskrár, herbergi og bókunarstöðu.

17. Fyrir sölu í gegnum söluvefi sem tengdir eru við kerfið er tekin 10 prósent söluþóknun. Ef gestur sem bókar kemur á söluvefi í gegnum bókunarbox á vefsíðu notanda er þóknunin aðeins 5 prósent. Söluþóknun fjármagnar rekstur kerfisins og markaðsstarf Íslandsbókunar sem skilar sér í auknum sýnileika gististaða sem selja gegnum vefinn. Notanda er þó ekki skylt að selja gistingu í gegnum söluvefi til að nota kerfið.

Ábyrgð

18. Íslandsbókun ábyrgist að öll gögn séu afrituð daglega. Að auki skulu gögn afrituð vikulega í öðrum landsfjórðungi en aðal vélbúnaður kerfisins er geymdur.

19. Íslandsbókun ábyrgist að fara með allar upplýsingar sem varða rekstur seljanda sem trúnaðarmál.

20. Íslandsbókun ber ekki ábyrgð á tekjumissi sem kann að hljótast af því ef síðan lokast vegna árása tölvuþrjóta, vegna villu í hug- og vélbúnaði síðunnar, eða vegna niðritíma sem orsakast af langvarandi rafmagnsleysi eða náttúruhamförum.

Höfundarréttur

21. Allur höfundarréttur, vörumerkjaréttur og annar réttur (skrásettur og óskrásettur) á kerfinu, þ.m.t. á vefum tengdum því og innihaldi þeirra, er í höndum Íslandsbókunar eða leyfisveitenda. Notandi má ekki afrita, endurgera, endurútgefa, bakþýða, bakhanna, hala niður, eða nota efni kerfisins á nokkurn annan hátt en til þeirrar notkunar sem kerfið var hannað fyrir. Notandi samþykkir að aðlaga ekki, breyta eða búa til afleidd verk af nokkru innihaldi kerfisins nema fyrir eigin notkun. Öll önnur notkun á innihaldi kerfisins krefst skriflegs leyfis Íslandsbókunar.

Gildi skilmálanna

22. Ef hluti skilmálanna stangast á við landslög á Íslandi skal sá hluti skilmálanna falla úr gildi, en aðrar greinar skilmálanna halda gildi sínu.

23. Töf á viðbrögðum við brotum á skilmálum þessum hefur engin áhrif á rétt Íslandsbókunar til að framfylgja ákvæðum skilmálanna.

24. Íslandsbókun áskilur sér rétt til breytinga á skilmálum þessum. Breytingar á skilmálum eru auglýstar notendum í kerfinu. Áframhaldandi notkun telst samþykki á breyttum skilmálum.

Þessum skilmálum var síðast breytt 1. janúar 2012

Íslandsbókun

Íslandsbókun er fyrirtæki á Húsavík sem þjónustar aðila í ferðaþjónustu um allt land. Hjá fyrirtækinu eru þrjú stöðugildi við forritun, markaðssetningu, textagerð og leitarvélabestun.

Móttökustjórinn

Móttökustjórinn er bókunarkerfi fyrir gististaði af öllum gerðum. Í kerfinu getur þú haldið utan um allar bókanir, fylgst með bókunarstöðu og komið í veg fyrir yfirbókanir.

Bókunarbox

Gististaðir sem nota Móttökustjórann geta fengið bókunarbox á vefsíðu sína og þannig selt gistingu beint gegn aðeins 5% þóknun. Þetta sparar mikinn tíma sem annars fer í tölvupóstsamskipti eða að taka við bókunum í gegnum síma.

©2010-2017 Íslandsbókun ehf | Höfði 24b | 640 Húsavík